Fara í efni

Upplýsingar til sýnenda

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er stefnumót fagaðila í ferðaþjónustu á Íslandi.

Markaðsstofur landshlutanna, í samvinnu við Isavia og Norlandair, setja upp vinnufundinn MANNAMÓT MARKAÐSSTOFA LANDSHLUTANNA fyrir samstarfsfyrirtæki sín fimmtudaginn 16. janúar 2025, kl. 12:00 – 17:00 í Kórnum í Kópavogi.

Mannamót markaðsstofanna er hugsað sem kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni. Tilgangurinn er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru víðs vegar um landið. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda og efla tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamótum gefst kostur á kynna sér það sem mismunandi landshlutar eru að bjóða uppá með áherslu á vetrarferðaþjónustu.

Á Mannamót bjóðum við gestum af höfuðborgarsvæðinu að koma að hitta okkur. Við sendum út rafræn boð og dreifum einnig boðskortum beint á skrifstofurnar:

  • Starfsfólki ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda
  • Starfsfólki upplýsinga- og bókunarmiðstöðva
  • Leiðsögumönnum
  • Nemendum í leiðsögunámi og ferðamálafræðum ásamt kennurum í ferðamálagreinum
  • Starfsfólki í þjónustuverum flugfélaga
  • Sölu- og kynningarfólki flugfélaga
  • Starfsfólki í mótttökum hótela og gistihúsa
  • Fjölmiðlum
  • Opinberum stofnunum:  Íslandsstofa, Ferðamálastofa, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Innanríkisráðuneytið, Samgöngustofu, Isavia, ofl.

Hér má sækja borða sem hægt er að setja inn í undirskrift í tölvupóst með upplýsingum um að þú ætlir að vera á Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna. Borðanum má gjarnan hala niður og deila inn á sína miðla, dreifa þannig gleðinni meðal samstarfsaðila í ferðaþjónustu og bjóða þeim að kíkja á ykkur í Kórnum þann 16. janúar 2025. Borðinn er einnig til á ensku.

Fyrirtæki sem ekki eru aðilar að markaðsstofu geta haft samband við sína landshlutaskrifstofu en tengiliðaupplýsingar þeirra má finna í fætinum hér fyrir neðan. 

Skráningu sýnenda lýkur þann 19. desember 2024

Tímasetningar 

  • Sýningarsalur tilbúinn fyrir uppsetningu þátttakenda kl. 10:30
  • Uppsetning milli kl. 10:30-12:00
  • Opið fyrir söluaðila 12:00-14:00
  • Opið fyrir ferðaþjónustu gesti: 12:00 – 17:00
  • Lokaviðburður á Iceland Parliment Hótel - Hittumst 19:30-21:00

Athugið að mikilvægt er að sýnendur byrji ekki að taka saman fyrr en að sýningunni er lokið kl 17:00. Einnig biðjum við sýnendur að koma ekki á sýningarsvæðið fyrr en kl 10:30 þar sem þá stendur yfir uppsetning á básum sem þarf að ganga hratt og vel fyrir sig.

Almennt fyrirkomulag 

Á Mannamótum er hefðbundið vinnusýningarskipulag en ekki eru fundabókanir.

Stærð og fyrirkomulag á bás

Hvert fyrirtæki hefur um 1 m af borðplássi og 1 vegg á bak við sig (prentstærð er 95x239 cm á milli járna) til umráða og er staðsett á sama stað og önnur fyrirtæki úr sama landshluta.

Markaðsstofa hvers landshluta raðar upp fyrirtækjum innan síns svæðis og gætir þess að fyrirtæki sem starfa á ákveðnum svæðum séu í nágrenni við hvert annað en einnig að samkeppnisaðilar í sambærilegum rekstri séu ekki hlið við hlið.

  • Einnota hvítur dúkur verður á öllum borðum.
  • Gott er að hafa með sér auglýsingastand til að hafa á bak við sig, nafnspjöld, bæklinga og annað kynningarefni til að dreifa til gesta.
  • Ekki má líma á bása nema með sérstöku límbandi sem er í boði hjá Sýningarkerfum.
  • Takmarkað rafmagn verður í boði inn á sýningarsvæði. Hyggjast sýnendur nota rafnmagn er æskilegt að þeir taki með langar framlengingarsnúrur.
  • Þráðlaust net er ekki til staðar. Hægt að notast við 4G.
  • Opinn eldur er ekki leyfður á sýningarsvæði.

Kynningarefni 

Á Mannamótum hvetjum við þátttökufyrirtæki til að bjóða upp á léttar veitingar og smakk úr heimabyggð auk þess að taka með sér kynningarefni sem gefur góða mynd af sérkennum svæða og fyrirtækja.

Sýnendur fá svart hálsband þar sem hægt er að setja nafnspjald eða skrifa nafn einstaklings og fyrirtækis. Gestir fá hvítt hálsband við inngang og eru þannig aðgreindir frá sýnendum.

Gott að hafa í huga fyrir Mannamót

  • Nafnspjöld. Vera með nafnspjöld til að dreifa og vera dugleg að fá nafnspjöld frá aðilum sem heimsækja og þannig safna tengiliðum fyrir fyrirtækið.
  • Bæklinga eða flyer. Upplýsingar um fyrirtækið og vöruna sem verið er að bjóða uppá. Nafn á fyrirtæki, staðsetningu (ekki gleyma að setja hvar á landinu viðkomandi þjónusta er), hvaða vöru er verið að bjóða uppá, mikilvægt að hafa góðar myndir því myndir segja meira en 1000 orð.
  • Veggspjald eða auglýsingastand.
  • Tölvu/spjaldtölvu til að sýna fleiri myndir, aðstöðu og þjónsutuframboð (rafmagn í boði en takmarkaður fjöldi innstunga).
  • Vörur/smakk úr héraði. (ATH: Í Kórnum er hnetubann vegna bráðaofnæmis.)
  • Hafa í huga hvað á að segja og hvað þarf að koma fram. Hvað er aðalatriði og hvað eru aukaatriði. Æfa lyfturæðuna. Það gæti orðið mikið af fólki og lítill tími með hverjum og einum.
  • Njóttu þess að vera til, njóttu þess að vera á staðnum, ná augnsambandi og brosa. Ekki gleyma að þú ert þarna til að ná samtali við gestina og þar sem ekki eru fyrirframbókaðir fundir byggir árangurinn á því hversu góður sölumaður þú ert.

Fjölnotamál skipta máli: Boðið verður upp á kaffi. Við hvetjum alla til þess að taka með sér fjölnotamál til þess að takmarka notkun á einnota málum. 

Verð

Verð fyrir sýnendur er 31.900 + vsk.

Markaðsstofur landshlutanna hvetja öll fyrirtæki í ferðaþjónustu til að taka þátt í Mannamótum og nýta tækifærið til kynningar og sölu á sínu fyrirtæki. Þetta er einstakt tækifæri til að efla tengsl við núverandi viðskiptavini, mynda ný tengsl og ekki síður til að kynnast samstarfsaðilum um allt land.

Mannamót hafa þá sérstöðu að í sýningunni taka þátt fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, gömul og ný, frá öllum landshlutum. Uppsetningin og aðstaðan er hrá, óformleg og gefur góða mynd af sérkennum svæðanna sem hefur vakið ánægju bæði gesta og sýnenda. Markaðsstofurnar senda út þjónustukönnun eftir hverja sýningu þar sem aðilum gefst kostur á að koma skoðun sinni á framfæri og reynum við að aðlaga þjónustuna og skipulagið hverju sinni að þeim athugasemdum og tillögum sem koma fram.

Ef spurningar vakna varðandi þátttökuna hafðu þá samband við þína markaðsstofu.

Reykjanes: info@visitreykjanes.is
Vesturland: info@west.is
Vestfirðir: travel@westfjords.is
Norðurland: info@nordurland.is
Austurland: sigfinnur@austurbru.is
Suðurland: info@south.is

Hlökkum til að eiga frábæran dag með ykkur á MANNAMÓTUM MARKAÐSSTOFA LANDSHLUTANNA 2025!
Markaðsstofur landshlutanna