Markaðsstofur efla tengsl og skoða áfangastaði
Undanfarin ár hefur starfsfólk Markaðsstofa landshlutanna hist á sameiginlegum fundi 1-2 á ári til að ræða sameiginleg málefni og styrkja tengslin. Í þetta sinn buðu fulltrúar Austurlands heim, kynntu sitt svæði með kynningu og vettvangsferð.
Fjölbreytt afþreying á Austurlandi
Fyrst var farið í Sláturhúsið – menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs. Þar er gamla sláturhúsið á Egilsstöðum notað til að setja upp listsýningar, leiksýningar og í ýmsa menningarviðburði. Húsið hefur haldið sínum upprunalegu sérkennum en er afar skemmilega stílfært á nútímalegan hátt. Þar var mikil upplifun að skoða sýningu um Kjarval ásamt ljósmyndasýningu Stuart Richardson.
Eftir skemmtilega heimsókn í Sláturhúsið var haldið í Borgarfjörð Eystri þar sem Hafnarhúsið við Hafnarhólma var skoðað. Þar fræddist hópurinn um húsið og framtíðarplön þess ásamt því að ganga upp á pall efst á hólmanum og njóta útsýnisins.
Því næst heimsótti hópurinn hótelið og veitingastaðinn Blábjörg og KHB brugghús í bænum Bakkagerði. Auður Vala, eigandi og framkvæmdarstjóri, sagði frá því hvernig hugmyndin varð til og hvernig reksturinn hefur gengið fyrir sig. Það var áhugavert að heyra hversu vel hefur gengið að reka staðinn allt árið um kring þrátt fyrir að vera ekki í alfaraleið og efasemdir hafi verið til staðar í fyrstu.
Á leiðinni til baka á Egilsstaði heimsótti hópurinn Hreindýragarðinn þar sem hægt er að skoða hreindýr í nálægð. Staðurinn er einstaklega fallegur og ekki laust við að fólk kæmist í jólaskap við að heilsa þessum loðnu, vinalegu dýrum með stóru hornin.
Dagurinn endaði svo með heimsókn í Vök þar sem baðlón renna saman við náttúruna á látlausan og smekklegan hátt.
Samstarfsverkefni og sameiginleg málefni rædd
Daginn eftir fundaði hópurinn um sameiginleg verkefni og málefni. Það sem bar hæst á fundinum var umræða um áfangastaðaáætlun og sameiginleg hugtakanotkun og framgangur og þróun Mannamóta.
Auk þess voru mál tengd skemmtiferðaskipum rædd og staðan á svæðunum þegar kemur að þeim. Þá fékk hópurinn kynningu frá fulltrúum Ferðamálastofu á nýju og uppfærðu mælaborði ferðaþjónustunnar sem er ætlað að auðvelda aðgengi að gögnum um ferðaþjónustu á Íslandi.
Einnig var þar rætt um mikilvægi vinnu að gagnagrunni Ferðamálastofu en Markaðsstofur landshlutanna eru lykilsamstarfsaðili um þá vinnu.
Hópurinn vinnur nú að skipulagningu á Mannamótum markaðsstofa landshlutanna sem verður haldið í Kórnum í Kópavogi fimmtudaginn 16. Janúar 2025.