Samstarf Markaðsstofa landshlutanna eflist
Í lok árs 2023 gekk Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins inn í samstarf Markaðsstofa landshlutanna. Með samstarfinu er lögð áhersla á að vinna saman að eflingu ferðaþjónustunnar um allt land í samstarfi við fyrirtæki og sveitarfélög, í gegnum sameiginleg verkefni.
Forsvarsfólk Markaðsstofa landshlutanna fagna þessari viðbót. Með tilkomu Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins eru nú markaðs-og áfangastaðastofur í öllum landshlutum sem lokar hringnum og gerir það að verkum að hægt er að vinna sameiginlega að enn öflugri verkefnum með sameiginlegt leiðarljós; Að gera Ísland allt að heilsársáfangastað með sjálfbærni að leiðarljósi.
Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins var stofnuð 3. apríl 2023 af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk stofunnar er að þróa og markaðssetja áfangastaðinn í heild. Áhersla er á að efla atvinnustarfsemi og auka gjaldeyristekjur.
Samhliða stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins var áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins 2023 – 2026 birt, sú fyrsta sem unnin hefur verið fyrir svæðið.
Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, segir samstarf Markaðsstofa landshlutanna mikilvægan lið í eflingu ferðaþjónustu um allt land: „Við hlökkum til sameiginlegra verkefna og tækifæra í þróun og markaðssetningu landshlutanna, því saman erum við sterkari“.
Nánari upplýsingar um Markaðsstofur landshlutanna og samstarfið má finna í hlekk með upplýsingar um samstarfið.